Nýtt kerfi - fyrir fagaðila
Markmið í nýju kerfi er að:
• Gera örorkulífeyriskerfið einfaldara, skilvirkara, gagnsærra og réttlátara
• Auka hvata til atvinnuþátttöku
• Auka stuðning við einstaklinga í endurhæfingu og hindra að fólk falli á milli kerfa
• Koma í veg fyrir að fólk endi ótímabært á örorku
Helstu breytingar
Örorkulífeyrir frá 1. september 2025
Nýr örorkulífeyrir frá 1. september 2025 er fyrir þau sem eru metin með 0 - 25% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Nýr örorkulífeyrir er varanlegur.
Útreikningur örorkulífeyrisgreiðslna verður einfaldaður. Nýr örorkulífeyrir verður tekjutengdur og kemur í stað greiðsluflokkanna; örorkulífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu. Sjá fjárhæðir og frítekjumörk hér.
Yfirfærsla í nýtt kerfi
Fólk sem er með gilt örorkumat sem gildir til 31. júlí 2025 eða skemur þarf að fara í hefðbundið endurmat samkvæmt núgildandi kerfi ef þörf er á áframhaldandi örorkulífeyri. Umsókn þarf að berast fyrir 1. september 2025.
Fólk með örorkumat sem gildir til 31. ágúst 2025 eða lengur flyst í nýtt kerfi og fær varanlegan rétt til örorkulífeyris.
Umsóknir um örorkulífeyri sem berast til 31. ágúst 2025 verða meðhöndlaðar samkvæmt núgildandi kerfi.
Í aðdraganda breytinganna mun Tryggingastofnun upplýsa einstaklinga með örorkumat um stöðu hvers og eins.
Hlutaörorkulífeyrir - virknistyrkur
Nýr hlutaörorkulífeyrir frá 1. september 2025 er fyrir þau sem eru metin með 26 - 50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Hlutaörorkulífeyrir er varanlegur.
Hlutaörorkulífeyri er ætlað að veita einstaklingum með getu til virkni á vinnumarkaði fjárhagslegan stuðning og vera hvati til atvinnuþátttöku með frítekjumarki vegna atvinnutekna.
Á örorkustyrk og með gilt örorkumat til 31. júlí 2025 eða skemur
Þau sem fá örorkustyrk og eru með gilt örorkumat til 31. júlí 2025 eða skemur þurfa að fara í hefðbundið endurmat samkvæmt núgildandi kerfi.
Umsókn um endurmat þarf að hafa borist fyrir 1. september 2025. Verði endurmatið samþykkt fá þau varanlegar örorkustyrkgreiðslur frá og með 1. september 2025. Eftir þann tíma verður ekki hægt að sækja um örorkustyrk þar sem hann leggst af sem slíkur.
Þau sem fá örorkustyrk geta sótt um örorkulífeyri eða hlutaörorkulífeyri eftir 1. september 2025 og þurfa þá að gangast undir samþætt sérfræðimat. Ef þau uppfylla hvorki skilyrði örorku- né hlutaörorkulífeyris halda þau þrátt fyrir það áður samþykktum varanlegum örorkustyrk.
Þau sem eru með örorkustyrk munu fá nánari upplýsingar frá Tryggingastofnun um sína stöðu í nýju kerfi þegar nær breytingunum dregur.
Hlutaörorkulífeyrir og virknistyrkur
Vinnumálastofnun er heimilt að greiða virknistyrk til þeirra sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri og eru í virkri atvinnuleit með stuðningi stofnunarinnar.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur
Sjúkra- og endurhæfingagreiðslur taka við af endurhæfingarlífeyri 1. september 2025.
Fyrir hverja
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru ætlaðar þeim sem búa við langvarandi eða alvarlegan heilsubrest, eða fötlun sem talin er geta haft áhrif til frambúðar á getu til virkni á vinnumarkaði og ef viðkomandi:
er í viðurkenndri meðferð eða endurhæfingu.
bíður eftir að meðferð eða endurhæfing geti byrjað.
getur ekki sinnt endurhæfingu vegna heilsubrests.
er í atvinnuleit eftir endurhæfingu.
hafi fullnýtt veikindarétt frá vinnuveitanda og greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélags.
hafi átt lögheimili á Íslandi í samfellt 12 mánuði fyrir upphaf töku sjúkra- og endurhæfingargreiðslna.
Greiðslutímabil
Heimilt verður að greiða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur:
í allt að 60 mánuði. Hægt verður að framlengja greiðslur um 24 mánuði ef um er að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu með fjölþættan vanda sem þurfa á meiri endurhæfingu að halda.
á meðan einstaklingur bíður eftir að fá meðferð eða að endurhæfing hefjist. Sama á við komi heilsubrestur viðkomandi í veg fyrir að meðferð eða endurhæfing geti hafist.
í 3 mánuði eftir að endurhæfingu lýkur ef viðkomandi er skráður í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun.
Einstaklingar með endurhæfingarlífeyri 31. ágúst 2025
Öll sem eru með samþykkt endurhæfingartímabil lengur en til 31. ágúst 2025 fá sjúkra- og endurhæfingargreiðslur frá og með 1. september 2025. Ekki verður þörf á að sækja sérstaklega um yfirfærsluna né senda inn ný gögn.
Greitt verður út gildistíma þess endurhæfingartímabils sem samþykkt var fyrir 1. september 2025.
Öll sem eru með endurhæfingarlífeyri 31. ágúst 2025 munu fá nánari upplýsingar um stöðu sína í nýju kerfi þegar nær breytingunum dregur.
Þjónustuaðilum ber skylda til að eiga samstarf um þjónustu í tengslum við endurhæfingu einstaklinga.
Þetta á einkum við um einstaklinga sem lenda á milli þjónustu endurhæfingaraðila og einstaklinga með fjölþættan vanda.
Þjónustuaðilarnir eru:
Tryggingastofnun
Félagsþjónustur sveitarfélaga
Vinnumálastofnun
Heilbrigðisstofnanir
VIRK starfsendurhæfingarsjóður
Samþætt sérfræðimat þarf að fara fram til að ákveða rétt til örorkulífeyris eða hlutaörorkulífeyris og kemur því í stað núgildandi örorkumats.
Endurhæfing eða viðurkennd meðferð sem hefur það að markmiði að stuðla að aukinni færni til atvinnuþátttöku að fullu eða að hluta þarf vera fullreynd áður en farið er í samþætt sérfræðimat.
Hægt að víkja frá skilyrði um samþætt sérfræðimat ef það er talið óþarft.
Samþætta sérfræðimatið metur getu/færni einstaklinga til virkni á vinnumarkaði
það er einstaklingsbundið
það er heildrænt
Samþætta sérfræðimatið byggir á hugmyndafræði ICF-flokkunarkerfisins, alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu.
færni er afleiðing af samspili heilsufars og aðstæðna einstaklingsins.
Starfshópur sem skipaður er af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ber ábyrgð á gerð samþætta sérfræðimatsins. Tryggingastofnun ber ábyrgð framkvæmd matsins.
Samhæfingarteymi um allt land
Þjónustuaðilar munu setja á fót samhæfingarteymi í því skyni að stuðla að samfellu í þjónustu og greiðslum hjá þeim einstaklingum sem þurfa á þjónustu fleiri en eins þjónustuaðila í endurhæfingu.
Þjónustuaðilarnir eru:
Tryggingastofnun
Félagsþjónustur sveitarfélaga
Vinnumálastofnun
Heilbrigðisstofnanir
VIRK starfsendurhæfingarsjóður
Samhæfingarteymi verða svæðisbundin. Gert er ráð fyrir sex samhæfingarteymum á landinu: Reykjavík, Kraginn, Vesturland og Vestfirðir, Norðurland, Austurland og Suðurland og Suðurnes.
Hvert teymi verður skipað tveimur sérfræðingum frá hverjum þjónustuaðila og einum til vara. Gert er ráð fyrir að þátttaka í teymunum sé hluti af starfsskyldu viðkomandi sérfræðinga.
Teymisstjórar hjá Tryggingastofnun halda utan um fundi teymanna og alla tölfræði.
Hlutverk samhæfingarteyma
Tryggja að einstaklingar sem þurfa þjónustu fleiri en eins þjónustuaðila eða þurfa að fara á milli þjónustuaðila njóti heildstæðrar nálgunar í endurhæfingu með því að stuðla að nauðsynlegri yfirsýn yfir þjónustuna.
Tryggja aukna samfellu í endurhæfingu og framfærslu fólks sem þarf þjónustu fleiri en eins þjónustuaðila, þarf að fara á milli þjónustuaðila eða þegar þjónustuþörf er óljós.
Skoða sérstaklega bið í úrræði og leita mögulegra leiða til að draga úr biðlistum í samstarfi við þjónustuaðila velferðarkerfisins, draga fram þörf fyrir uppbyggingu nýrra úrræða og meta árangur þeirra sem fyrir eru.
Tryggingastofnun skal starfrækja þjónustugátt meðal annars í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir þá meðferð sem einstaklingar fá.
Tryggingastofnun skal halda skrá þar sem fram kemur með tæmandi hætti hvaða upplýsingum um einstaklinga er miðlað í gegnum þjónustugáttina.
Þjónustuaðilum er skylt að tryggja aðgang að nauðsynlegum gögnum í gegnum þjónustugáttina og skulu fulltrúar samhæfingarteyma hafa aðgang að þeim upplýsingum.
Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (ICF eða International Classification of Functioning, Disability and Health)
Tilgangur kerfisins er að flokka og lýsa færni einstaklings í samspili við umhverfi og aðstæður.
Samkvæmt hugmyndarfræði flokkunarkerfisins er færni afleiðing af samspili heilufars og aðstæðna einstaklings.
Samþætt sérfræðimat sem tekur við af núgildandi örorkumati í núverandi kerfi byggir á hugmyndafræði ICF.
Starfshópur sem skipaður er af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ber ábyrgð á gerð samþætta sérfræðimatsins sem notað verður hér á landi. Tryggingastofnun ber ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd þess eftir 1. september 2025.
Fyrir gildistöku laganna mun Tryggingastofnun fræða og upplýsa viðeigandi aðila nánar um samþætt sérfræðimat og notkun þess.
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun