Fara beint í efnið

Lyfjaávísanir - eftirlit og leiðbeiningar

Leiðbeiningar um góða starfshætti lækna við ávísun ávana- og fíknilyfja og fleiri lyfja sem hafa misnotkunarhættu í för með sér

Mikilvægt er að læknar nýti ávallt lyfjagagnagrunn embættis landlæknis og miðlæga lyfjakortið við útgáfu lyfjaávísana og alla yfirferð lyfja sjúklings. Yfirfara þarf óútleystar lyfjaávísanir í lyfjaávísanagátt og ógilda þær ef við á. Þetta á við um öll lyf, en sérstaklega um ávana- og fíknilyf, sjá nánar í reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, nr. 740/2020. Ef í gildi er ávísun í lyfjaávísanagátt á ávana- og fíknilyf er óheimilt að útbúa aðra lyfjaávísun, nema:

  • Ávísað sé á annan styrkleika lyfsins, annað lyfjaform eða lyf með öðru virku innihaldsefni.

  • Fella eigi út gildi gildandi lyfjaávísun og útbúa nýja.

Ávísandi læknir hverju sinni ber ábyrgð á að þetta sé gert.

Ávísi læknir ávana- og fíknilyfi í andstöðu við framangreint getur það leitt til beitingar viðurlagaúrræða. Brot á reglum um ávísanir ávana- og fíknilyfja geta varðað takmörkun heimildar til ávísunar tiltekinna lyfja eða lyfjaflokka. Endurtekin eða alvarleg brot geta varðað sviptingu starfsleyfis í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Um ávísanir ávana- og fíknilyfja

Um ávana- og fíknilyf gildir að það er læknirinn en ekki sjúklingurinn sem ákveður endanlega hvaða lyf er notað og gefur fyrirmæli um notkunina. Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, veita sjúklingum t.d. ekki rétt á að ráða sjálfir lyfjavali eða krefja lækni um ávísun einstakra lyfja eða skömmtun þeirra, nema læknirinn samþykki. Læknirinn metur á gagnrýninn hátt og út frá bestu þekkingu hvaða lyfjum einstaklingur þarf raunverulega á að halda og í hvaða skömmtum og endurskoðar lyfjanotkunina reglulega. Lækni er því skylt að synja um þær lyfjaávísanir sem hann telur stangast á við góða starfshætti lækna.

Lyfjaávísanir áhættusamra lyfja eiga að vera í höndum þess læknis sem hóf meðferð, eða í samráði við hann. Þetta á sérstaklega við þegar um ávana- og fíknilyf er að ræða og sjúklingur hefur fengið hærri skammta en kveðið er á um í sérlyfjaskrá - eða lyf sem ætti ekki að nota samhliða.

Læknanemar með tímabundið starfsleyfi hafa ekki heimild til að ávísa eftirritunarskyldum lyfjum. Þeir mega ekki ávísa öðrum ávana- og fíknilyfjum nema í samráði við lækni á viðkomandi starfsstöð enda hafi sá ótakmarkað lækningaleyfi. Læknar sem eru ábyrgir fyrir læknanemum með tímabundið starfsleyfi eiga að sjá til þess að framfylgja þessum reglum.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis