Leiðir til að vernda persónuupplýsingar sínar á netinu
Einstaklingar geta gert ráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar sínar á netinu. Nota skal sömu skynsemi og notuð er þegar beðið er um persónulegar upplýsingar á pappír eða í persónu.
Meðal þess sem hægt er að íhuga:
hver er að safna upplýsingum?
hvað verður gert við þær?
eru þær nauðsynlegar?
hverjar eru hugsanlegar afleiðingarnar?
Persónuverndarstefna og notendaskilmálar
Það er mælt með því að skoða vel persónuverndarstefnu miðilsins, notendaskilmála og annað sem máli getur skipt, svo sem upplýsingar um notkun á vefkökum. Þannig má afla sér vitneskju um það hvernig persónuupplýsingar notenda eru nýttar og í hvaða tilgangi.
Persónuverndarstefna er yfirlýsing sem á sýna fram á:
hver er að safna upplýsingunum,
í hvað á að nota þær, og
hvort þeim verði deilt með öðrum.
Ef fyrirætlanir eru ekki skýrar er ráð að biðja viðkomandi fyrirtæki um frekari upplýsingar áður en gefnar eru upp persónulegar upplýsingar, sérstaklega ef þær eru viðkvæmar.
Friðhelgis- og auglýsingastillingar
Friðhelgis- og auglýsingastillingar á samfélagsmiðlum geta veitt einstaklingum stjórn á því hvernig persónuupplýsinga þeirra eru notaðar.
Það er rétt að yfirfara friðhelgistillingar reglulega og nýta þá möguleika sem bjóðast til þess að stýra því hvernig persónuupplýsingarnar eru notaðar. Þá er einnig nauðsynlegt að yfirfara reglulega þær heimildir sem hafa verið veittar öðrum vefsíðum eða smáforritum.
Þegar smáforrit eru notuð, til dæmis á Facebook, þarf notandinn iðulega að samþykkja að veita forritinu aðgang að tilteknum upplýsingum. Sama á við þegar notandinn velur að nota aðgangsauðkenni sín fyrir til dæmis Facebook til þess að skrá sig inn á aðrar vefsíður.
Þessi aðgangur getur verið misvíðtækur og er full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart vefsíðum og smáforritum sem fara fram á víðtækari aðgang en þörf er á í þágu tilgangsins með notkun þeirra.
Eyðing aðgangs
Hafa skal hugfast að þótt tilteknu smáforriti sé eytt, til dæmis af Facebook eða úr síma viðkomandi notanda, er ekki þar með sagt að persónuupplýsingum notandans sé jafnframt eytt úr gagnagrunnum fyrirtækisins.
Áður en forritinu er eytt er rétt að kynna sér hvernig farið verður með persónuupplýsingarnar ef notkun þess er hætt, en upplýsingar um það ættu að vera aðgengilegar í gegnum forritið eða rekstraraðila þess.
Góð almenn ráð til að auka öryggi:
Allir ættu að vera vakandi fyrir hættum á netinu, svo sem persónuþjófnaði, svikapóstum og ósamþykktri miðlun upplýsinga.
Það er mikilvægt að:
hafa sterkt lykilorð
vera varkár með hvaða upplýsingar eru settar á netið
lesa skilmála áður en persónuupplýsingar eru gefnar upp