Fara beint í efnið

Lánshæfismat og meðferð persónuupplýsinga

Lánshæfismat er ferli sem notað er til að meta hversu líklegt er að einstaklingur geti staðið við lánasamning eða skuldbindingar.

Lánshæfismat

Lánveitendum getur verið skylt samkvæmt lögum eða útlánareglum fyrirtækja að meta svokallað lánshæfi þess sem óskar eftir lánafyrirgreiðslu. Það getur verið nauðsynlegt, svo hægt sé að framkvæma áreiðanlegt lánshæfismat, að notast við upplýsingar frá fjárhagsupplýsingastofu, svo sem Creditinfo Lánstrausti hf. Creditinfo Lánstraust hf.

Skýrsla um lánshæfi

Creditinfo lánstraust hf. notar upplýsingar úr sínum gagnagrunni til að vinna svokallaða skýrslu um lánshæfi einstaklinga og lögaðila. Slík skýrsla inniheldur niðurstöðu á útreikningi Creditinfo lánstrausti hf. á líkindum þess hvort aðili muni efna lánssamning. Niðurstaðan er oft notuð af lánveitendum til að ákveða hvort og á hvaða kjörum þeir veita lán.

Hvaða upplýsingar eru notaðar í skýrslur um lánshæfi?

Skýrsla um lánshæfi á að byggjast á áreiðanlegum upplýsingum sem hafa afgerandi þýðingu og veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort viðkomandi muni standa við lánssamning.

Fjárhagsupplýsingastofa má einungis afla og vinna upplýsingar í þeim tilgangi að útbúa skýrslu um lánshæfi úr opinberum gögnum og skrám sínum, og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma áreiðanlegt mat.

Fjárhagsupplýsingastofa getur líka unnið með aðrar upplýsingar, svo sem um skuldastöðu viðkomandi í því skyni að framkvæma áreiðanlegt mat, en samþykki í skilningi persónuverndarlaga þarf að liggja fyrir áður.

Hvenær má framkvæma lánshæfismat?

Lánshæfismat er oftast framkvæmt þegar einstaklingur sækir um lán, opnar reikning eða tekur aðrar skuldbindingar sem tengjast fjárhagsmálefnum. Fyrirtæki þurfa að hafa lögmæta ástæðu og skýran tilgang til að fá aðgang að persónuupplýsingum fyrir lánshæfismat. Það þarf jafnframt að liggja fyrir beiðni fyrir slíku mati.

Einstaklingar og lögaðilar geta jafnframt sjálfir óskað eftir því frá fjárhagsupplýsingastofu að hún útbúi skýrslu um lánshæfi viðkomandi, þ.e. án þess að fyrir liggi beiðni frá þriðja aðila.

Réttindi einstaklinga og lögaðila

  • Fræðsla: Áður en fjárhagsupplýsingastofa gerir og miðlar skýrslu um lánshæfismat þitt á hún að greina þér frá því hvaða upplýsingar og breytur verða notaðar við gerð skýrslunnar.

  • Aðgangur að upplýsingum: Einstaklingar og lögaðilar eiga meðal annars rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar eru notaðar við útreikning á lánshæfismati viðkomandi og hvernig þær eru fengnar, vægi einstakra breytna við útreikning á líkindum í skýslu um lánshæfi og þau rök sem liggja þar að baki.

  • Leiðrétting og eyðing: Ef rangar eða óáreiðanlegar upplýsingar eru notaðar í lánshæfismat, eiga einstaklingar og lögaðilar rétt á að fá þær leiðréttar eða þeim eytt.

  • Takmarkanir á vinnslu: Einstaklingar og lögaðilar geta einnig óskað eftir því að vinnsla persónuupplýsinga við útreikning á lánshæfismati þeirra verði takmörkuð ef hún er óþörf eða ekki lengur nauðsynleg.

Þjónustuaðili

Persónu­vernd

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820