Fara beint í efnið

Öll á vinnustöðum þurfa að vera meðvituð um þá áhættu í vinnuumhverfinu að fólk geti fallið við vinnu. Er þá bæði átti við fall á jafnsléttu þegar fólk til dæmis fellur í hálku, rennur í bleytu á gólfi eða rekst í snúrur og verkfæri á gólfi og fall úr hæð, svo sem af verkpöllum, stigum eða borðum. Fall við vinnu, hvort sem fallið er á jafnsléttu eða úr hæð, getur valdið alvarlegum áverkum.   

Fall við vinnu_grafík

Slysatíðni 

Um 25 prósent af tilkynntum vinnuslysum á Íslandi eru vegna falls á jafnsléttu og er það ein algengasta tegund vinnuslysa sem tilkynnt er til Vinnueftirlitsins. Jafnframt eru 10 prósent tilkynntra vinnuslysa vegna falls úr hæð, en þau slys eru til dæmis vegna falls úr stiga, af verkpöllum og þegar stigið er niður úr vinnuvélum. Tilkynna skal til Vinnueftirlitsins öll vinnuslys sem leiða til þess að hinn slasaði verður óvinnufær í einn eða fleiri daga umfram daginn sem slysið varð. 

Afleiðingar falls við vinnu 

Helstu áverkar sem starfsfólk verður fyrir vegna falls við vinnu eru á fótum þar með talið á læri, hné, ökkla og kálfa, en einnig eru algengir áverkar á öxl, axlarliðum, hrygg og hryggjarliðum.  Draga þarf úr líkum þess að fólk falli við vinnu með því að meta áhættu á því og grípa til viðeigandi öryggisráðstafana.

Fallslys við vinnu valda oft langri fjarveru starfsfólks.

Mat á áhættu í vinnuumhverfi

Atvinnurekendur bera ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað án tillits til stærðar hans. 

Áhættumat þarf að gera fyrir alla atvinnustarfsemi. Það á við hvort sem um er að ræða staðbundna eða færanlega starfsemi, verktaka eða starfsfólk starfsmannaleiga. Það á líka að gera óháð starfsmannafjölda sem getur verið frá einum og upp úr.  Tilgangur matsins er að koma auga á áhættuþætti í vinnuumhverfinu og meta hugsanleg áhrif þeirra á öryggi og vellíðan starfsfólks þannig að unnt sé að koma í veg fyrir áhættuna. Sé þess ekki kostur þarf að draga úr áhættunni eins og mögulegt er.

Hér má sjá mögulegar aðstæður sem geta valdið falli við vinnu: 

Í myndbandinu er fjallað um hvaða hættur í vinnuumhverfinu geta valdið falli á jafnsléttu.

Fall úr hæð

Fall úr hæð er með algengari slysum sem verða við vinnu hér á landi, eða 10 prósent tilkynntra slysa. Fallslys eru alvarleg og geta valdið varanlegum skaða og í alvarlegustu tilfellunum lætur starfsfólk lífið. Slík föll koma einna helst fyrir í mannvirkjagerð, verksmiðjum, viðhaldi og vöruhúsum en geta átt sér stað í hvaða atvinnugrein sem er. Oft þarf ekki hátt fall til að valda alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólk.

Að tryggja öryggi á vinnustað til að koma í veg fyrir fall úr hæð krefst samspils nokkurra þátta. Allir vinnustaðir þurfa að hafa áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þannig að áhættan hefur verið metin og brugðist við henni með viðeigandi ráðstöfunum, svo sem öryggisreglum og öryggisbúnaði. Það skiptir einnig máli að starfsfólk noti viðeigandi öryggisbúnað og virði þær öryggisreglur sem settar hafa verið. Þar getur menning vinnustaðarins haft mikil áhrif. Mikilvægt er að stjórnendur gangi á undan með góðu fordæmi og setji skýr viðmið um öryggi á vinnustað sem eykur líkur á að starfsfólk fylgi þeim viðmiðum. Það þurfa einnig að vera skýr skilaboð um að það sé í lagi að láta vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi.

Öll sem vinna á vinnustaðnum bera síðan ábyrgð á hegðun sinni og taka þátt í að gera vinnustaðinn að öruggum stað til að vera á. Með markvissum aðgerðum með þátttöku allra sem þar starfa má draga verulega úr líkum á fallslysum úr hæð og jafnvel koma alfarið í veg fyrir þau.

Ef vinna á verk í hæð þarf strax við hönnun, skipulag eða undirbúning verksins að ákveða hvaða fallvarnir eigi að nota. Engin ein fallvörn er best heldur skipta aðstæður og tími sem verk tekur öllu máli. Mjög mikilvægt er að starfsfólk sem þarf að vinna í hæð fái góða og upplýsandi kennslu og þjálfun.

Slys í stigum 

Á hverju ári verða allmörg slys, sum alvarleg, þar sem starfsfólk fellur við vinnu í lausum stigum. Koma má í veg fyrir þessi slys með réttum vinnubrögðum. Þau geta verið: 

  • Stærð og gerð stigans þarf að hæfa verkinu.

  • Þegar stiga er komið fyrir þarf að tryggja að hann standi á stöðugu yfirborði og gæta þarf sérstakrar varúðar þar sem snjór eða bleyta er.

  • Tryggja þarf að stiginn geti ekki runnið til, til dæmis með því að láta neðri hlutann nema við kannt eða með öðrum öruggum hætti .

  • Áður en stiga er komið fyrir þarf að yfirfara hann. Bogin þrep eða kjálkar geta valdið því að stiginn þoli ekki þá þyngd sem hann er gerður fyrir (venjulega 150 kg). Eins þarf að skoða bönd og stífur á tröppum.

  • Ef vísbendingar eru um að stigi hafi orðið fyrir hnjaski eða hann orðinn slitinn á að endurnýja hann strax og tryggja að stigum sem er búið að taka úr umferð sé fargað jafnóðum.

Helstu áhættuþættir vegna vinnu í hæð:

Dæmigerðir vinnustaðir þar sem fallhætta er til staðar:

  • Byggingasvæði:

    • Þakvinna, vinnupallar og stiganotkun eru helstu áhættusvæðin.

  • Vöruhús og verksmiðjur:

    • Vinna á milliloftum, hlaðstæðum eða þegar verið er að nota lyftara til þess að lyfta fólki.

    • Fall af tröppum og úr stigum.

  • Viðhaldsvinna:

    • Reglubundið viðhald á þökum, gluggum og loftræstikerfum.

    • Gluggaþvottur, rennur og uppsetning á auglýsingaskiltum og öðrum búnaði.

Forvarnir vegna vinnu í hæð

Til að draga úr hættunni á falli úr hæð þurfa atvinnurekendur og starfsfólk að kynna sér vel þær reglur sem gilda um vinnu í hæð og tryggja að þeim sé vel fylgt eftir.

Neyðarviðbúnaður

Þrátt fyrir að gripið hafi verið til allra varúðarráðstafana er mikilvægt að vera viðbúin því að það geti komið upp frávik og jafnvel slys. Þess vegna er mikilvægt að allir vinnustaðir þar sem hætta er metin á falli úr hæð geri neyðaráætlun þar sem kemur fram til hvaða ráðstafana á að grípa til ef einstaklingur fellur úr hæð.

  • Hafa björgunaráætlun tilbúna ef einstaklingur fellur og hangir fastur í fallvarnarbelti.

  • Tryggja að sjúkrakassar séu til staðar ásamt þjálfuðu starfsfólki til að veita tafarlausa aðstoð. Gott er að fara reglulega yfir þessi atriði með starfsfólkinu til að viðhalda þjálfun þess.

Forvarnir 

Gefi áhættumat á vinnustað til kynna að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin, skal atvinnurekandi þegar í stað grípa til nauðsynlegra forvarna og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættuna og sé þess ekki kostur að draga úr hættu með áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Hún er hluti af áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.  

Forvarnir geta falið eftirfarandi í sér:

  • skipulag vinnu 

  • fræðslu 

  • þjálfun 

  • hönnun 

  • val á tækjum og búnaði 

  • notkun öryggis- og hlífðarbúnaðar 

Best er að "hanna hættuna burt" til dæmis með því að:

  • gera vinnu í hæð óþarfa eða hættuminni 

  • skipta út einni hættu fyrir aðra sem er minna hættuleg 

Eftirfarandi eru dæmi um forvarnir: 

 Nánari upplýsingar um vinnu í hæð má finna í bæklingi um vinnu í hæð

Ábendingar gegn fallslysum á vinnustað 

Atvinnurekendur þurfa að grípa til forvarna til að koma í veg fyrir fallslys og setja skýr viðmið um viðbrögð á vinnustað komi upp aðstæður sem geta leitt til fallhættu. Í því sambandi er gott að hafa eftirfarandi í huga:  

  • Mikilvægt er að hreinsa snjó af bílastæðum og gönguleiðum á lóð vinnustaða og hálkuverja þau með salti, sandi eða öðrum viðurkenndum hálkulosandi efnum. Gott er að hafa áætlun um hvernig snjómokstur skal fara fram þegar byrjar að snjóa þannig að komi ekki að óvörum en í því getur falist að skilgreina hlutverk þess starfsfólks sem ætlað er hlutverk í því ferli.

  • Útvega þarf starfsfólki sem vinnur utandyra viðeigandi skófatnað miðað við aðstæður hverju sinni og gæta þess að það noti hann.  

  • Lýsing þarf að vera góð og stígamerkingar á lóðinni sem og á gönguleiðum þurfa að vera skýrar. Gæta þarf að því að hreinsa þarf merkingar á vetrum þegar snjór og drulla er líklegri til að hylja þau.

  • Hreinsa þarf strax upp leka og blaut svæði innandyra og setjið upp viðvörun á svæðinu til að draga úr hættu á fallslysi.

  • Ganga þarf úr skugga um að mottur liggi sléttar á gólffleti svo starfsfólk falli ekki um þær. 

  • Fylgjast þarf með aðstæðum og bregðist fljótt við ef slys ber að höndum eða ef starfsfólk tilkynnir um mögulega hættu í vinnuumhverfinu.   

Með þessum forvörnum eykst öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustaðnum þar sem dregið er úr líkum á fallslysum. Það er hagur allra að öll komi heil heim starfsævina á enda.  

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið