Fyrirframsamráð við Persónuvernd
Hvenær þarf að leita fyrirframsamráðs við Persónuvernd ?
Ábyrgðaraðili skal hafa samráð við Persónuvernd áður en vinnsla hefst ef mat á áhrifum á persónuvernd gefur til kynna að vinnsla myndi hafa mikla áhættu í för með sér, nema ábyrgðaraðili grípi til ráðstafana til að draga úr henni.
Hvernig fer fyrirframsamráðið fram?
Beiðni um fyrirframsamráð þarf að vera skrifleg og henni þarf að fylgja afrit af mati á áhrifum á persónuvernd.
Persónuvernd hefur átta vikur til að meta hvort fyrirhuguð vinnsla myndi brjóta í bága við persónuverndarlög eða almennu persónuverndarreglugerðina og skal veita ábyrgðaraðila og/eða vinnsluaðila ráðgjöf varðandi vinnsluna.
Lengja má þennan frest um sex vikur ef vinnsla er flókin og þarf Persónuvernd þá að tilkynna ábyrgðaraðila og/eða vinnsluaðila um slíka töf.
Þá má framlengja þessa fresti þar til Persónuvernd hefur fengið þær upplýsingar sem hún óskar eftir vegna samráðsins.