Brunabótamat
Endurmat á brunabótamati
Það er mikilvægt að brunabótamat endurspegli efnislegt virði eignarinnar. Ef einhverju hefur verið bætt við eignina eða framkvæmdar meiri háttar endurbætur er það ástæða til að óska eftir endurmati.
Brunabótamat
Brunabótamat nær yfir efnisleg verðmæti eignar (til dæmis timbur, steypu, stál) og kostnað við byggingu, að frádregnum afskriftum vegna aldurs, slits og ástands. Brunabótamat húseigna afskrifast aldrei að fullu en á fyrstu 60 árum eignar afskrifast brunabótamatið að einhverju leyti. Gert er ráð fyrir að húsið hafi fengið eðlilegt viðhald. Auk þess er innifalinn kostnaður við að fjarlægja brunarústir.
Ef farið er í miklar endurbætur og hlutar eignar endurnýjaðir getur verið ástæða til að endurskoða afskriftarár eignarinnar. Við það ganga afskriftir til baka að einhverju leyti. Þá eru þeir byggingarhlutir ekki taldir lengur frá þeim tíma sem húsið var byggt (til dæmis 1963) heldur frá þeim tíma sem þeir voru endurnýjaðir (til dæmis 2022).
Dæmi um viðbætur við brunabótamat
Stækkun á húsi.
Skjólveggir úr timbri.
Sólpallur.
Yfirbygging á svölum.
Heitur pottur.
Dæmi um endurbætur
Skipt um lagnir.
Nýjar innréttingar.
Skipt um einangrun eða klæðningu.
Allt sem er meira en eðlilegt viðhald.
Senda beiðni um endurmat brunabótamats
Þú sendir umsókn með upplýsingum um fasteignanúmer og landeignanúmer.
Fylgigögn
Greinargóð lýsing á endurbótum eða viðbyggingu, efni sem var notað og hvaða ár framkvæmdirnar voru gerðar.
Lýsing á öllu sem er nýrra en byggingarár, eða það ár sem er vitað að brunabótamat hafi verið endurmetið.
Skýrar myndir af öllu því sem þú vilt gera grein fyrir.
Skriflegt umboð ef annar en eigandi sækir um.
Þegar þú hefur sent umsóknina er birt staðfesting á móttöku. Ef upplýsingar vantar er haft samband með tölvupósti en ef þú vilt bæta við upplýsingum (til dæmis fleiri myndum) getur þú sent á netfangið brunabotamat@hms.is.
Endurmat brunabótamats er gjaldfrjálst.
Afgreiðsla á beiðni
Þú færð tilkynningu um nýtt brunabótamat með hnippi á island.is. Afgreiðslutími er að jafnaði 5–10 virkir dagar.
Þegar brunabótamat hefur verið endurmetið skilar það sér sjálfkrafa til tryggingafélagsins þíns og uppfærast iðgjöld á brunatryggingu í samræmi við það.
Þjónustuaðili
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun