Bannskrá Þjóðskrár og vinnsla persónuupplýsinga
Um bannmerkingar í þjóðskrá gilda reglur nr. 36/2005 um skráningu einstaklinga, sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningu og notkun slíkrar skrár. Með markaðssetningu er átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, gíróseðla, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts eða hliðstæðar aðferðir, sem varða kaup eða leigu á vöru eða þjónustu eða þátttöku í tiltekinni starfsemi, hvort sem hún er viðskiptalegs eðlis eða varðar tómstundir, afþreyingu, námskeið eða sambærilegt atferli.
Skyldan um samkeyrslu við bannskrá Þjóðskrár á ekki við ef eingöngu er notast við netföng, enda fer engin sérstök skráning um netföng einstaklinga fram hjá Þjóðskrá. Einnig er rétt að taka fram að Persónuvernd getur, í sérstökum tilvikum, heimilað undanþágu frá þeirri skyldu að samkeyra slíka lista við bannskrá Þjóðskrár.
Bannskráin nær eingöngu til markaðssetningar. Einstaklingar gætu því lent í því að fá meðal annars beiðnir um að taka þátt í vísindarannsóknum.
Ávallt er þó að sjálfsögðu frjálst að neita því að taka þátt í slíkum rannsóknum auk þess sem virða þarf andmæli þeirra við frekari þátttöku.