Alþjóðleg vernd, réttur og ferill umsókna
Jákvæð niðurstaða
Útlendingastofnun lýkur málsmeðferð sinni með ákvörðun. Ákvörðun í máli umsækjanda um alþjóðlega vernd er kynnt honum við birtingu ákvörðunar.
Jákvæð niðurstaða þýðir:
Framkvæmd ákvörðunar
Ef alþjóðleg vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum er veitt er viðeigandi dvalarleyfi gefið út og viðkomandi leiðbeint um framhaldið. Ef niðurstaða er synjun um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum er umsækjanda vísað frá landinu eða brottvísað. Ef niðurstaða Dyflinnarmeðferðar er sú að mál umsækjandi skuli ekki hljóta efnismeðferð hér á landi er honum vísað úr landi og til þess ríkis sem hefur tekið ábyrgð á umsókn hans.
Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar
Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar eru þau að útlendingur fær réttarstöðu flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings og skal honum veitt dvalarleyfi skv. 73. gr. útlendingalaga. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna, samningi um ríkisfangsleysi eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.
Maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar, börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd gilda almennar reglur um fjölskyldusameiningu.
Njóti barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar eiga foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Ef annað foreldrið hefur farið með forsjá barns nýtur það þessa réttar. Þá njóta þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára, eru án maka og búa hjá foreldrum eða foreldrinu.
Sá sem fær alþjóðlega vernd hér á landi sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fær útgefið dvalarleyfi til fjögurra ára. Að þeim tíma liðnum á viðkomandi rétt á að endurnýja leyfið nema að skilyrði séu til afturköllunar eða ef synjun um endurnýjun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Flóttamenn og ríkisfangslausir einstaklingar fá aðstoð við að koma undir sig fótunum hér á landi og mega stunda vinnu eða nám. Flóttamenn og ríkisfangslausir einstaklingar geta sótt um og fengið útgefin ferðaskírteini fyrir handhafa alþjóðlegrar verndar sem gilda í öllum ríkjum Evrópusambandsins og flestum öðrum ríkjum heims en ekki er hægt að nota ferðaskírteinið til ferða til heimalands. Dvalarleyfi handhafa alþjóðlegrar verndar getur skapað rétt til ótímabundins dvalarleyfis.
Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar falli flóttamaður eða ríkisfangslaus einsaklingur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. Í 48. gr. laganna er að finna skilyrði afturköllunar alþjóðlegrar verndar.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun