Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fasteignafélagið Þórkatla

Fá dæmi um endurskoðun kaupverðs

24. janúar 2025

Afar fá dæmi eru um að grípa hafi þurft til endurskoðunar kaupverðs við kaup á eignum í Grindavík. Þórkatla hefur tilkynnt þremur aðilum að krafa sé gerð um endurskoðun vegna slæms ástands eigna sem þeir seldu félaginu.

Grindavík

Fasteignafélagið hefur gengið frá kaupum á alls 932 eignum í Grindavík og í nær öllum tilfellum hefur kaupverðið staðið óhaggað. Af sjónvarpsfrétt RÚV í gærkvöldi, þar sem rætt var við lögmann seljenda, mátti skilja að umfang þessara mála væri mun meira.

Brunabótamat hækkaði um 10 milljarða eftir hamfarirnar
Kaupverð eigna einstaklinga í Grindavík miðaðist við 95% af brunabótamati samkvæmt lögum sem Alþingi setti en seljendum gafst þó ráðrúm til þess að óska eftir hækkun brunabótamats hjá HMS í kjölfar hamfaranna. Margir nýttu sér þennan möguleika og hækkaði brunabótamat fasteigna í Grindavík um 10 milljarða króna á nokkrum mánuðum vegna þessa.

Í flestum tilfellum hefur hækkun brunabótamats verið réttlát og eðlileg. Nokkur dæmi eru þó um ósamræmi milli matsins og raunverulegs ástands eigna. Í slíkum tilvikum hefur félagið kallað eftir endurmati á brunabótamati frá HMS áður en afsalsgreiðsla er greidd.

Mikil áhersla var lögð á að hraða kaupum á eignum Grindvíkinga og því framkvæmdi Þórkatla almennt ekki hefðbundna skoðun fyrir gerð kaupsamningsins, heldur gerði úttekt á þeim við afhendingu. Þó svo að í langflestum tilvikum hafi frágangur og skil eignanna verið í góðu lagi þá voru nokkur dæmi um hús í óásættanlegu ástandi. Ein fasteign sem seld hafði verið sem fullbúið hús reyndist við nánari skoðun vera nær fokheld.

965 umsóknir um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík
Nú hafa 965 umsóknir um kaup á íbúðarhúsnæði borist Fasteignafélaginu Þórkötlu. Alls hafa 939 umsóknir verið samþykktar og þar af eru 64 umsóknir þar sem félagið féllst á að tímabundnar aðstæður hafi skýrt skráningu á lögheimili annars staðar en í hinni seldu eign. Af þeim 26 umsóknum sem félagið hefur ekki samþykkt, hefur 13 umsóknum frá lögaðilum verið vísað frá, 7 umsóknum hefur verið synjað og svo eru 6 umsóknir í vinnslu hjá félaginu. Þegar hefur verið gengið frá 932 kaupsamningnum. Þá hefur afhending farið fram í 861 tilvikum og 830 afsöl verið undirrituð.

Heildarfjárfesting félagsins í þeim 932 eignum sem gengið hefur verið frá til þessa er tæpir 71 milljarður króna. Þar af hefur félagið greitt út rúma 49 milljarða króna í kaupsamnings- og afsalsgreiðslur og yfirtekið húsnæðislán seljenda upp á um 21,4 milljarð króna.