Fasteignafélagið Þórkatla
Árétting vegna dvalar í húsum í Grindavík
27. desember 2024
Fasteignafélagið Þórkatla, sem keypti húseignir Grindvíkinga, hefur fullan skilning á því að fólk vilji gjarnan dvelja í fyrrum húsum sínum í bænum yfir nótt. Þetta er hins vegar nokkrum vandkvæðum bundið vegna hættuástandsins sem enn ríkir á svæðinu.


Þórkatla vonast til þess að aðstæður verði til eðlilegrar búsetu í Grindavík sem fyrst
Hættuástand og rík lagaábyrgð er ástæða þess að ekki er hægt að dvelja í húsum þar yfir nótt
Í dag getur fólk sem afhendir eign til Þórkötlu geymt búslóðir sínar þar áfram
Ríflega 40 hafa gert hollvinasamninga um að fá að gæta húsa sinna og geyma búslóðir sínar þar
Samkvæmt lögum bera fasteignareigendur, í þessu tilfelli Þórkatla, ríka ábyrgð á öryggi í eignum sínum. Það er á grundvelli þessarar ábyrgðar sem sú ákvörðun var tekin að fólk geti ekki að sinni dvalið yfir nótt í húsum félagsins í Grindavík. Ákvörðunin mun verða tekin til endurskoðunar um leið og kvikusöfnun í Sundhnúksgígum hættir og dregið hefur úr líkum á eldgosi að mati vísindamanna.
Þórkatla tekur undir mikilvægi þess að hægt verði að hefja uppbyggingu Grindavíkur að nýju og vonast til þess að aðstæður verði til eðlilegrar búsetu í bænum sem fyrst. Á þeim tímapunkti mun félagið geta hafið sölu og útleigu þeirra húsa sem félagið hefur eignast í Grindavík, til viðbótar við gerð hollvinasamninga. Sem stendur hafa verið gerðir um fjörutíu slíkir hollvinasamningar en um 920 eignir eru alls í eigu félagsins í bænum.
Hollvinasamningarnir eru samstarfssamningar um umhirðu, minniháttar viðhald og almennt eftirlit með eignunum. Með því að gera hollvinasamning fær fólk aðgang að húsum sem Þórkatla hefur keypt. Hollvinurinn hefur þá heimild til þess að nota nýta húsið og til að geyma þar búslóð eða annað lausafé. Þannig geta seljendur viðhaldið tengslum sínum við húsið og sinnir Þórkatla ekki hefðbundnu eftirliti með því á meðan.
Starfsfólk Þórkötlu fylgist vel með umræðu um uppbyggingu Grindavíkur og reynt er að taka tillit til ábendinga um það sem betur má fara. Líkt og fram kemur í grein Péturs Hafsteins Pálssonar í Morgunblaðinu í dag þá eru dæmi um að fólk hafi farið með hluta af innbúi sínu til förgunar vegna skorts á geymsluplássi. Taka má undir að æskilegt hefði verið að hugsa fyrir þessu á sínum tíma en mikill þrýstingur var á Þórkötlu um að ganga sem fyrst frá kaupum á eignunum svo að Grindvíkingar gætu fest sér annað húsnæði. Í dag geta seljendur, sem enn eiga eftir að afhenda Þórkötlu eign sína, gert hollvinasamning og þannig geymt hluta af búslóð sinni áfram í eigninni.