Útgáfa og birting dóma á vef
Útgáfa og birting dóma á netinu miðar að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna.
Tilgangur
Birting dóma á að tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Útgáfunni er líka ætlað að styðja við fyrirmæli stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð. Þessar reglur eiga að veita dómstólum aðhald og stuðla að auknu trausti almennings á því að öll njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Reglur um birtingu dóma
Meginreglan er sú að dómar skulu birtir á vefsíðum dómstólanna. Þó eru undantekningar á þeirri reglu, sérstaklega varðandi dóma héraðsdómstólanna.
Í fyrsta lagi eftir klukkutíma
Dómur skal ekki birtur á netinu fyrr en liðin er að minnsta kosti klukkustund frá uppkvaðningu en þetta gefur lögmanni ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu málsins.
Innan 14 virkra daga
Dómstólar hafa allt að 14 virka daga frá uppkvaðningu til þess að birta dóm á netinu.
Birtingu frestað
Dómstóll má fresta birtingu ef rannsóknarhagsmunir í sakamáli krefjast þess.
Dómar héraðsdóms sem eru ekki birtir
Dómar héraðsdómstóla eru ekki birtir þegar um er að ræða:
Kröfu um gjaldþrotaskipti.
Kröfu um opinber skipti.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Mál um erfðir.
Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.
Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri ákveðið að víkja frá þessari reglu. Hann getur því ákveðið að birta dóm sem samkvæmt framangreindum lista skuli ekki birta, sem og að ákveðið að ekki birta dóm sem hefði átt að birta. Dómstjóri þarf að skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá dómstóla.
Fyrri dómsúrlausnir
Þegar dómar Landsréttar eða Hæstaréttar eru birtir skulu viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar fylgja, eða hlekkur á þær.
Nafnleynd
Dómar eru almennt birtir með nöfnum aðila en undantekningar eru á þeirri reglu.
Í einkamálum
Nöfn einstaklinga skulu ekki birtast í dómi þegar:
Fjallað er um viðkvæm persónuleg málefni svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd.
Fram koma upplýsingar sem teljast tviðkvæmar, þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.
Nöfn matsmanna og annarra sem láta í té sérfræðiálit sinn skal jafnframt ekki birt.
Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.
Í sakamálum
Nöfn þeirra sem koma fram í dómi sakamáls skulu almennt ekki birt.
Ef ákærður einstaklingur er sakfelldur er viðkomandi almennt nafngreindur. Nafn dómfellda skal þó ekki birt ef:
Ef birting á nafni dómfellda er andstæð hagsmunum brotaþola.
Ef dómfelldi var ekki orðinn 18 ára þegar brot sem ákært er fyrir voru framin.
Beiðni um nafnleynd
Þegar ár er liðið frá frá útgáfu dóms á vefsíðu dómstóls er hægt að óska eftir því að nafn verði hreinsað úr dóminum. Þegar orðið er við beiðni um nafnhreinsun þá gæti þurft að hreinsa aðrar persónurekjanlegar upplýsingar úr dóminum.
Nafnleynd á öllum dómstigum
Ef málið hefur farið í gegnum öll dómstigin þá þarf að senda hverjum dómstól, sem birt hefur dóminn á vefsíðu sinni, sérstaka beiðni um nafnhreinsun.
Nafn fjarlægt úr gagnasöfnum
Gagnasöfn, sem rekin eru af öðrum en dómstólunum, safna saman öllum dómum Hæstaréttar, Landsréttar, Endurupptökudóms og héraðsdómstóla sem birtar hafa verið á vefsíðum þeirra. Það þarf að hafa sérstaklega samband við rekstraraðila þessara gagnasafna ef þess er óskað að nafn aðila verði einnig afmáð úr dómsúrlausn í gagnasöfnum þeirra.
Umsókn um nafnleynd
Hægt er að sækja um nafnleynd rafrænt hjá dómstólunum með því að smella á eftirfarandi hlekki:
Beiðni um nafnleynd í dómi Hæstaréttar Íslands
Beiðni um nafnleynd í dómi Landsréttar
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Vesturlands
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Vestfjarða
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Austurlands
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Suðurlands
Beiðni um nafnleynd í dómi Héraðsdóms Reykjaness
Lesa meira
Þjónustuaðili
Dómstólar