Tilkynning um atvinnusjúkdóm eða atvinnutengdan sjúkdóm
Starfsfólk sem telur sig vera með atvinnusjúkdóm skal tilkynna það atvinnurekanda og leita til læknis.
Mikilvægt er að greina hvort orsakatengsl séu á milli sjúkdóms og vinnu eða aðstæðna í vinnuumhverfi. Þannig má koma í veg fyrir að annað starfsfólk fái sama sjúkdóm.
Atvinnusjúkdómar
Með atvinnusjúkdómi er átt við sjúkdóm sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í vinnuumhverfi.
Dæmi um atvinnusjúkdóma er heyrnarskerðing, öndunarfærasjúkdómar, húðsjúkdómar og sjúkdómar tengdir asbestmengun vegna aðstæðna í starfsumhverfi.
Bótaskyldir atvinnusjúkdómar
Atvinnutengdir sjúkdómur
Með atvinnutengdum sjúkdómi er átt við sjúkdóm eða sjúkdómsástand sem kemur fram, versnar eða ágerist vegna vinnu eða aðstæðna í starfsumhverfi en telst þó ekki orsakast beint af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi á grundvelli læknisfræðilegra gagna og annarra viðurkenndra gagna.
Mikilvægt er að upplýsa atvinnurekanda sem fyrst þegar einkenni gera vart við sig til að gefa honum tækifæri á að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir hugsanlega áhættuþætti.
Tilkynning
Frá starfsfólki
Starfsfólk sem telur sig vera með atvinnusjúkdóm skal tilkynna það atvinnurekanda og leita til læknis. Mikilvægt er að upplýsa atvinnurekanda sem fyrst þegar einkenni gera vart við sig til að gefa honum tækifæri á að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir hugsanlega áhættuþætti.
Starfsfólk sem er slysatryggt á Íslandi er heimilt að sækja um bætur vegna atvinnusjúkdóma sem þeir hafa greinst með til Sjúkratrygginga Íslands. Stofnunin metur hvort það sé orsakasamband milli sjúkdómsins og vinnu eða vinnuumhverfis þannig að sjúkdómur getir talist atvinnusjúkdómur.
Frá lækni
Læknir sem kemst að því eða fær grun um að starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlitsins. Þær tilkynningar eru óháðar því hvort atvinnusjúkdómar eða atvinnutengdir sjúkdómar teljist bótaskyldir.
Læknar skulu við greiningu og tilkynningu á atvinnusjúkdómum og atvinnutengdum sjúkdómum viðhafa vinnulag í samræmi við ákvæði reglugerðar nr.540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma.
Þó að sjúkdómar séu ekki á lista yfir atvinnusjúkdóma sem þarf að tilkynna er brýnt að tilkynna þá engu að síður leiki grunur á að orsakatengsl séu við vinnu.
Hægt er að senda inn tilkynningar í gegnum Sögu kerfið. Númer rafræns eyðublaðs er 225.
Skráning atvinnurekanda
Atvinnurekanda ber að halda skrá yfir þá sjúkdóma sem hann hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til tiltekins starfs eða annarra aðstæðna á vinnustað. Einnig ber honum að skrá óhöpp sem gætu valdið heilsutjóni, svo sem mengun vegna efna sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.
Áhættumat og forvarnir geta komið í veg fyrir atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. Þegar grunur leikur á að sjúkdómur starfsfólks tengist vinnuumhverfi er mikilvægt að atvinnurekandi bregðist við til að greina hugsanlegar orsakir og grípi til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdómsins innan starfsmannahópsins.
Skráning Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið heldur skrá yfir viðurkennda atvinnusjúkdóma. Tilgangurinn er að meta tíðni og útbreiðslu slíkra sjúkdóma í einstaka starfsgreinum ásamt þróun þeirra. Áhersla er ávallt á forvarnir þannig að koma megi í veg fyrir að endurtekna atvinnusjúkdóma á vinnustöðum og innan einstakra starfsgreina.
Sjúkratryggingar Íslands senda afrit af tilkynningum um atvinnusjúkdóma á vinnustöðum til Vinnueftirlitsins.
Við afgreiðslu umsókna um bætur vegna atvinnusjúkdóma líta Sjúkratryggingar Íslands til meðfylgjandi leiðbeininga frá Evrópusambandi um greiningu atvinnusjúkdóma.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið