Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi

Einstaklingum á aldrinum 60-74 ára er boðið í skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi er árangursrík leið til að lækka dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Markmið skimunarinnar er að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi og auka þar með líkur á lækningu.

Boð í skimun

Samhæfingarstöð krabbameinsskimana (SKS) sér um að senda út sýnatökusett fyrir hægðapróf (FIT-próf) til einstaklinga í skimunarhópi með leiðbeiningum um hvernig sýnataka fer fram. Hægðapróf er rannsakað með tilliti til þess hvort blóð sé í hægðunum. Einstaklingar taka sýni heima, setja sýnið í umslag merkt rannsóknastofu Landspítala og fara með sýnið á næstu heilsugæslustöð eða senda það með pósti.

Reiknað er með að blóð finnist í um 6-8% sýna (jákvætt FIT-próf).

Mælt er með ristilspeglun innan fjögra vikna fyrir þá sem greinast með blóð í hægðum. Ristilspeglun fer fram hjá sjálfstætt starfandi meltingarlæknum og skurðlæknum sem framkvæma ristilspeglanir. Niðurstaða speglunar færist í skimunarskrá sem heldur utan um niðurstöður speglana og eftirlit.

  • Aldurshópurinn 60-74 ára fær boð í skimun á 2ja ára fresti.

  • Allar niðurstöður úr skimunum berast rafrænt innan þriggja vikna á Heilsuvera.is - Mínar síður.

Stefnt er á að bjóða skimun í aldurshópunum 50-74 ára þegar komin er reynsla á skimunina hér á landi.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis