Sýslumenn fyrstir opinberra stofnana til að ná 9 stafrænum skrefum Ísland.is
27. september 2023
Sýslumenn fengu síðastliðinn föstudag viðurkenningu á ráðstefnunni Tengjum ríkið fyrir að hafa náð öllum níu Stafrænum skrefum Ísland.is.
Stafrænu skrefinu eru hvataverðlaun fyrir opinbera aðila sem voru í fyrsta skiptið veitt árið 2022, en þá fengu sýslumenn viðurkenningu fyrir að vera (þá þegar) búnir að innleiða þjónustur sem samsömuðu átta stafrænum skrefum. Sýslumenn hafa einir stofnana náð öllum níu skrefunum. Hin níu stafrænu skref eru: Stafrænt pósthólf, Innskráning fyrir alla, Umsóknarkerfi Ísland.is, Mínar síður Ísland.is, Vefsíða á Ísland.is, Spjallmennið Askur, Ísland.is appið, Straumurinn og Þjónustuvefur á Ísland.is. Sýslumenn hafa tileinkað sér allar þessar þjónustur á einungis þremur árum.
"Það er gleðilegt að sýslumenn fái slíka viðurkenningu enda felst í henni staðfesting á því sem áður hefur verið haldið fram, að sýslumenn eru fremstir meðal jafningja þegar kemur að innleiðingu stafrænnar opinberrar þjónustu". Kristín Þórðardóttir, formaður Sýslumannaráðs og sýslumaður á Suðurlandi".
Sýslumenn hafa sett sér að það markmið að vera leiðandi í stafrænni og rafrænni þjónustu og tóku sýslumenn fyrstir stofnana ákvörðun um að hýsa heimasíðu sína á Ísland.is. Nýr vefur var tekinn í notkun í maí 2021 og markaði nýtt upphaf í þjónustu embættanna þar sem vefurinn býður upp á aukin tækifæri til að veita fjölbreyttari rafrænar þjónustur líkt og netspjall, spjallmenni og „spurt og svarað“. Sýslumenn vinna markvisst að því að efla bæði staðbundna og stafræna þjónustu og hafa innleitt nýtt skipulag til að hraða innleiðingu stafrænna lausna. Í dag eru yfir 90 þjónustuleiðir orðnar stafrænar. Grundvöllur fyrir þeim árangri sem náðst hefur er breið samstaða sýslumanna um bætta þjónustu en ekki síður það, að verkið hefur af hálfu embættanna verið unnið af starfsfólki sem þegar var við störf á embættunum og þekkti því vel til verkefna sýslumanna.