Fyrsta rafræna þinglýsingafærslan vegna afsals
18. apríl 2023
Í síðustu viku urðu þau gleðitíðindi að fyrsta rafræna þinglýsingin á afsali varð að veruleika.
Þetta er stór áfangi í verkefninu um rafrænar þinglýsingar, en verkefnið hefur staðið yfir í núverandi mynd frá árinu 2019 í samstarfi sýslumanna, Stafræns Íslands, dómsmálaráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þinglýsing afsals er lokaskrefið í uppgjöri aðila í fasteignaviðskiptum, en afsal er fullnaðarkvittun fyrir efndum kaupsamnings og innsiglar flutning eignarhalds frá seljanda til kaupanda. Hefur aðdragandi þessa áfanga verið langur og undirbúningur mikill. Ráðgert er að næstu stóru áfangar verkefnisins miði að því að bjóða upp á rafræna þinglýsingu á öllum skjölum sem tengjast fasteignakaupum einstaklinga í þéttbýli.
Rafrænar þinglýsingar hafa í för með sér umtalsverðan þjóðhagslegan ávinning og eru lykilþáttur í að Ísland verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu.