Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu
13. febrúar 2025
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu.


Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. febrúar, en alls var tilkynnt um 55 umferðaróhöpp í umdæminu.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 3. febrúar. Kl. 7.50 var bifreið ekið suður Víkurveg í Reykjavík, á aðrein að Vesturlandsvegi, og á reiðhjól á merktri gangbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 8.03 var bifreið ekið austur Skeiðarvog í Reykjavík, að gatnamótum við Sæbraut, og beygt þar til norðurs, en þar lenti hún á gangandi vegfaranda, sem var á leið yfir götuna á merktri gangbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 15.59 hafnaði bifreið á ljósastaur við Strandgötu í Hafnarfirði. Talið er að ökumaðurinn hafi fengið flogakast í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.32 varð tveggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi í Reykjavík, við Hádegismóa, en þeim var ekið úr gagnstæðri átti. Í aðdragandanum sagðist annar ökumannanna hafa misst stjórn á bifreið sinni á hálku og hún við það farið yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. febrúar. Kl. 17.30 hafnaði bifreið á ljósastaur við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, við Ásahverfi. Talið er að ökumaðurinn hafi fipast þegar annarri bifreið var ekið fram úr honum í aðdraganda slyssins. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.14 hafnaði bifreið á ljósastaur á Gullinbrú í Reykjavík. Talið er að ökumaðurinn hafi fipast þegar sterk vindhviða kom á bifreiðina í aðdraganda slyssins. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. febrúar. Kl. 17.13 var bifreið ekið austur Nýbýlaveg í Kópavogi, að gatnamótum við Dalveg, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Mjög mikil hálka var á vettvangi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.04 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dofrahellu og Borgahellu í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið á öfugum vegarhelmingi, en ökumaður hennar er grunaður um ölvunarakstur. Annar ökumannanna var flutttur á slysadeild.
Laugardaginn 8. febrúar kl. 18.49 varð tveggja bíla árekstur á Breiðholtsbraut í Reykjavík, við Seljaskóga, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum ætlaði annar ökumannanna að taka vinstri beygju á gatnamótunum og aka síðan suður Seljaskóga þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.