Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Reynsla af afbrotum og viðhorf til lögreglu á Norðurlandi vestra

24. febrúar 2025

Rúmlega 90% íbúa á Norðurlandi vestra telja lögreglu sinna mjög góðu eða frekar góðu starfi. Þá sjáum við að sýnileiki lögreglu með ágætum en um 87% íbúa segjast sjá lögreglu vikulega eða oftar í sínu hverfi eða byggðalagi samanborið við 44% allra landsmanna.

Lögreglubíll á Skagaströnd

Nýlega voru birtar niðurstöður könnunar um reynslu almennings af afbrotum og viðhorfum til lögreglu, sem framkvæmd var síðasta sumar og úrtakið var 4482 af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Rúmlega 90% íbúa á Norðurlandi vestra telja lögreglu sinna mjög góðu eða frekar góðu starfi. Þá sjáum við að sýnileiki lögreglu með ágætum en um 87% íbúa segjast sjá lögreglu vikulega eða oftar í sínu hverfi eða byggðalagi samanborið við 44% allra landsmanna.

Viðhorf til lögreglu og reynsla íbúa

Aðgengi að lögreglu þarf að bæta skv. niðurstöðum könnunarinnar en þar kemur fram að rúmlega 69% telja lögregluna mjög aðgengilega eða frekar aðgengilega sem er undir meðallagi á landsvísu. Um helmingur þeirra sem leitaði til lögreglu á tímabilinu hafði samband við Neyðarlínu 112 en við leggjum áherslu á það í öllum kynningum að haft sé samband við 112 þurfi einstaklingur aðstoð frá lögreglu.

Sé litið til trausts íbúa til lögreglu má sjá að rúm 88% treysta lögreglu mjög vel eða frekar vel, sem er nokkuð yfir meðaltali á landsvísu. Það er ánægjulegt að sjá að íbúar norðurlands vestra treysta lögreglu hvað best sé litið til annarra embætta. Svipað hlutfall íbúa telur lögreglu heiðarlega í sínum störfum, þó eru þar 12% sem ekki taka afstöðu til spurningarinnar. Nánasti allir telja að hlýða þurfi fyrirmælum lögreglu eða tæp 93%, þó maður sé ósáttur við framkomu lögreglu eða úrlausn mála. Athygli vekur að nokkur aldursdreifing er á þessum þætti, en yngra fólk er neikvæðara í afstöðu sinni en það eldra. Rúmlega 87% íbúa telja að lögregla fari að lögum í samskiptum sínum við fólk en um 5% eru frekar ósammála þeirri staðhæfingu sem bendir til þess að okkar fólk þarf ef til vill að vera skýrara við borganna og færa rök fyrir þeim lagaheimildum sem liggja að baki.

Um 70% íbúa telja að lögregla hafi svipuð viðhorf og gildi og þeir sjálfir, það er nokkuð undir meðaltali og er vísbending um að auka þurfi samtal á milli lögreglu og íbúa svo allir gangi í takt. Siðferðisleg gildi íbúa og lögreglu virðast þó vera í nokkuð góðum takti þar sem 89% íbúa telja að afgreiðsla lögreglu sé alla jafna í samræmi við sín siðferðislegu gildi, samanborið við rúm 78% á landsvísu. Þegar íbúar eru spurðir um hvort þeir telji lögreglu framfylgja lögum með sambærilegum hætti gagnvart öllum kemur í ljós að rúmlega 75% telja svo vera. Þrátt fyrir að það sé nokkuð yfir landsmeðaltali þá verðum við að gera betur þar því það er mikilvægt að enginn upplifi mismunun af hálfu lögreglu. Sama er upp á teningnum hvað varðar upplifum fólks af því að lögregla gefi sér tíma til að hlusta á fólk, þar er embættið talsvert yfir meðallagi eða rúm 80% telja svo vera. Hins vegar eru tæp 20% sem annað hvort taka ekki afstöðu til fullyrðingarinnar eða eru henni ósammála, við sem störfum við löggæslu viljum að það sé upplifun fólks að lögregla hlusti.

Mikill meirihluti, og umtalsvert fleiri hér á Norðurlandi vestra en á landinu öllu, telja lögreglu koma fram við fólk af sanngirni og virðingu (85%). Talsvert rými er til bóta sé litið til þeirrar fullyrðingar hvort lögregla taki ákvarðanir byggðar á staðreyndum, þar er embættið rétt undir landsmeðaltali en tæp 60% telja svo sé. Svipaða sögu er að segja af upplifun fólks af málsmeðferð lögreglu, en aðeins um helmingur telur að íbúar fái þá málsmeðferð sem þeir eiga rétt á, samanborið við 61% landsmeðaltals. Rúm 72% íbúa telja að lögregla veiti öllum sambærilega þjónustu, sem er talsvert yfir landsmeðaltali en athygli vekur að 15% íbúa telur svo ekki vera, sem er áhyggjuefni. Tæp 80% íbúa telur lögreglu kurteisa og tæp 90% telur lögreglu virða réttindi fólks, sem er umtalsvert hærra hlutfall en á landsvísu.

Þegar litið er til staðhæfinga sem snúa að valdi lögreglu er áhugavert að sjá að tæp 82% sé sammála því að fylgja skuli fyrirmælum lögreglu þó maður skilji ekki þær ástæður sem lagðar eru til grundvallar þeim. Langflestir telja að lögregla vinni í þágu almennings eða rúm 88% og rúm 70% er því sammála að virða beri ákvarðanir lögreglu jafnvel þó maður telji þær rangar þó að rúmlega 45% telji að það geti komið upp aðstæður þar sem það sé í lagi að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu.

Íbúar upplifa sig örugga

Öryggistilfinning íbúa á Norðurlandi vestra er mjög góð og yfir landsmeðaltali, rúm 98% telja sig örugga að í sínu hverfi/byggðalagi þegar myrkur er skollið á og íbúar hafa heilt yfir ekki áhyggjur af því að verða fyrir afbroti. Sé aftur á móti spurt út í einstaka brotaflokka þá hafa 53% áhyggjur af því að verða fyrir innbroti samanborið við 37% landsmanna, 1% ofbeldi eða líkamsárás samanborið við 17% landsmanna og 4% óttast að verða fyrir innbroti, á móti 15% landsmanna. Um 12% íbúa óttast að verða fyrir kynferðisbroti, en athygli vekur að á landsvísu hefur rúmlega 3. Hver einstaklingur á aldrinum 18-25 áhyggjur af því að verða fyrir slíku broti. Áberandi hærra hlutfall íbúa á Norðurlandi vestra óttast að verða fyrir fjársvikum eða svikum i viðskiptum, eða 12% samanborið við 3% að landsmeðaltali. Áhugavert er að skoða þessa tölfræði út frá tölum úr kerfum lögreglu, þar sem líkamsárásir eru til að mynda mun algengari en innbrot.

Þá er einnig áhugavert að líta til þess að 4% svarenda þeirri könnunarinnar, segjast hafa orðið fyrir ofbeldisbroti eða líkamsárás en 10% íbúa telja sig hafa orðið fyrir einhvers konar broti, samanborið við 19% landsmanna. Hins vegar er segjast 9% svarenda fyrir hótunum, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hendi annars fjölskyldumeðlims en maka eða fyrrum maka, á síðasta ári. Það er umtalsvert hærra hlutfall en landsmeðaltal gefur til kynna eða um 1%.

Hvað varðar netbrot þá höfðu 8% íbúa orðið fyrir því að kúgað af þeim fé eða gerð tilraun til þess með hótun um dreifingu klámfenginna mynda eða myndbanda í gegnum netið, samanborið við 4% landsmanna.

Könnun sem þessi, er mikilvæg fyrir embættið og er hún nýtt til að þess rýna í starfsemina og viðhorf borganna til hennar.

Fyrir áhugasama þá er hægt að skoða niðurstöður könnunarinnar á þessari slóð: Reynsla almennings af afbrotum og viðhorf til lögreglu