Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Óveður á Austurlandi í dag og á morgun

5. febrúar 2025

Logo Lögreglan

Varað er við sunnanstormi sem gengur yfir landið í dag og á morgun. Hættustig almannavarna er í gildi fyrir nánast allt landið frá klukkan 15:00.

Rauð viðvörun tekur gildi á Austurlandi um klukkan 18:00 til klukkan 04:00 í nótt. Önnur rauð viðvörun tekur svo gildi frá klukkan 8 til klukkan 17 á morgun. Gert er ráð fyrir miklum vindstyrk auk þess sem mikilli úrkomu er spáð á Suðausturlandi. Ekki er hægt að útiloka að krapaflóð falli á meðan veðrið gengur yfir. Ekki er þó hætta á slíku í byggð að mati Veðurstofu.

Biðlað er til fólks á Suðausturlandi að sýna aðgát kringum vatnsfarvegi, forðast að dvelja í bröttum hlíðum og fylgjast vel með spám og viðvörunum meðan veðrið gengur yfir.

Vegna vindstyrks eru íbúar hvattir til að gæta vel að því að koma lausamunum í skjól og að bátar í höfnum séu tryggilega festir. Ekkert ferðaveður verður í fjórðungnum meðan veðrið gengur yfir.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með fréttum af veðri og færð. Þá er tilkynninga að vænta á heimasíðum sveitarfélaga varðandi meðal annars skólahald á morgun.

Sjá einnig Hættustig Almannavarna á öllu landinu nema Vestfjörðum | Almannavarnir / Skriðuhætta næstu daga á Suður- og Suðausturlandi | Ofanflóð