Lögreglusamþykkt Reykjavíkur 1930
7. febrúar 2025


Fyrir hátt í hundrað árum var litlum miða dreift í Reykjavík, en í texta á honum var hvatt til þess að íbúar kynntu sér ákvæði lögreglusamþykktar þess tíma. Einn þessara gömlu miða, en mynd af honum fylgir hér að neðan, fannst í munum tengdum Ingibjörgu H. Bjarnason, kennara og síðar forstöðukonu Kvennaskólans um áratugaskeið, þegar verið var við tiltekt og flokkun gagna á háalofti Kvennaskólans á Fríkirkjuvegi fyrir skömmu. Við þá vinnu var Rakel Tanja Bjarnadóttir sem sendi okkur miðann og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.
Hermann Jónasson, sem var glímukóngur Íslands 1921, skrifaði undir orðsendinguna, en hann var lögreglustjóri í Reykjavík 1929-1934. Hermann sat enn fremur lengi á alþingi og var m.a. forsætisráðherra 1934-1942 og 1956-1958.
Ingibjörg H. Bjarnason var sömuleiðis á alþingi, eða árin 1922-1930, en hún var fyrst kvenna til að taka þar sæti.
Myndirnar af Hermanni og Ingibjörgu eru af vef alþingis.