Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Lögreglan Forsíða
Lögreglan Forsíða

Lögreglan

Af verkefnum febrúarmánaðar á Norðurlandi vestra

3. mars 2025

Málafjöldi janúar og febrúar er áþekkur, á fimmta hundrað mál er skráð hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra nú í febrúar. Veður hafði nokkur áhrif á verkefni lögreglunnar að þessu sinni enda nokkuð byljótt tíðin

Snjór á Blönduósi 2024

Málafjöldi janúar og febrúar er áþekkur, á fimmta hundrað mál er skráð hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra nú í febrúar. Veður hafði nokkur áhrif á verkefni lögreglunnar að þessu sinni enda nokkuð byljótt tíðin. Þá var bæði tilkynnt um foktjón sem og ófærð víða.

Lögreglan var til aðstoðar við borgarana í 17 málum, mikill meirihluti þeirra mála var vegna veikinda fólks. Þá aðstoðaði lögregla m.a. ökumenn bifreiða sem höfðu fest þær í snjó eða farið utan vegar, þá var lögregla einnig við umferðastjórnun á Holtavörðuheiði. Einungis 2 mál eru skráð til aðstoðar opinberra aðila, en í báðum tilvikum var um ræða skráningu á lögheimili og kennitölu. Ein tilkynning barst um eignaspjöll, þá var tilkynnt um þjófnað eða grun um slíkt í þremur tilvikum. Kæra barst vegna þjófnaðarmáls og er það í rannsókn lögreglu.

Alls voru 55 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, langflestir óku á 110-120 km hraða en sá sem hraðast ók mældist á 147 km hraða. Viðurlög við slíkum hraðakstri eru sekt upp á 210.000 kr, 3 punktar í ökuferilsskrá og svipting ökuréttar í 1 mánuð. Oft heyrum við því fleygt fram að það hljóti að vera erlendir ríkisborgarar sem séu í meirihluta þeirra sem virða ekki reglur um hámarkshraða en svo er ekki þennan mánuðinn, eða marga aðra, af þessum 55 voru aðeins 6 ökumenn með erlent ríkisfang.

Þá voru einnig ökumenn á ferð án tilskilinna réttinda við, virtu ekki stöðvunarskyldu, voru ekki í belti eða án skráningarmerkja. Þá voru eigendur 14 bifreiða boðaðir með þær í skoðun þar sem skoðunarskyldu ökutækja hafði ekki verið sinnt. Skráningarmerki einnar bifreiðar voru fjarlægðar við slíkt tilefni. Þá var tilkynnt um 9 umferðarslys, ekki var um ræða alvarleg slys á fólki en nokkuð eignatjón varð. Í tveimur tilvikum voru bifreiðar óökuhæfar og skráningarmerki því tekin af þeim.

Þá var tilkynnt um tvö mál er varða ágreining á milli á milli einstaklinga innan fjölskyldu. Annað málið var tilkynnt til barnaverndar en hitt til félagsþjónustu, þar sem ekki voru ólögráða börn á vettvangi eða tengd aðilum.

Þá voru dýr í dreifbýli sem þurfti að aðstoða til síns heima eða með öðrum hætti. Í þrígang var tilkynnt um laus hross sem höfðu farið yfir girðingar sem höfðu fennt í kaf. Tilkynnt var um dauðan sel við Miklavatn en þá höfðu íbúar einnig áhyggjur af gæludýri nágranna síns. Lögregla aðgætti aðstæður dýrsins og ræddi við eiganda þess án frekari eftirmála.

Eftirlit með skemmtanalífi var nokkuð tíðindalítið í febrúar, viðamikið eftirlit var með ölvunarakstri en þess að neinn hafi verið kærður fyrir slíka háttsemi. Tilkynnt var um eina líkamsárás sem er til rannsóknar hjá lögreglu. Einn einstaklingur var kærður fyrir brot á áfengislöggjöfinni og gisti sá aðili í fangageymslu.

Tilkynnt var um eld í sumarhúsi, ekki var um að ræða tjón á fólki en talsvert eignatjón varð. Málið er í rannsókn lögreglu.

Lögregla hafði í sex skipti af ungmennum yngri en 18 ára og voru þau mál öll leyst með aðkomu foreldra. Forvarna- og fræðsluverkefni voru 14 talsins. Þar var 1-1-2 dagurinn fyrirferðamikill um embættið og tók lögregla í fyrsta skipti þátt í deginum á Skagaströnd ásamt Björgunarsveitinni Strönd. Unglingar í Skjólinu á Blönduósi tóku á móti lögreglu sem atti kappi við þau m.a. í pílu og pool. Það var mjög skemmtileg heimsókn og vonumst við til að fleiri ungmenni á svæðinu bjóði lögreglu í heimsókn í spjall og sprell.

Nokkuð var um að áhyggjufullir borgarar hefðu samband við lögreglu vegna hjólreiðafólks sem var á ferð um umdæmið í slæmri færð og óákjósanlegu veðri til hjólreiða. Í því tilviki var um að ræða erlenda ferðamenn sem voru upplýstir um slæma veðurspá og þeim fylgt eftir í gistingu.

Þá afgreiddi lögregla einnig mál er varða bikblæðingar á vegum og óvarlega notkun vasaljósa barna ungmenna við umferðargötu ásamt fleiri verkefnum.