Aðgerðir á Instagram til að vernda ungmenni gegn kynlífskúgun
19. október 2024


Meta hefur tilkynnt um nýjar aðgerðir á Instagram sem miða að því að vernda ungmenni gegn kynlífskúgun (e. sextortion) og hótunum um dreifingu kynferðislegra mynda. Þessar aðgerðir eru sérstaklega mikilvægar í ljósi þess að Instagram er meðal vinsælustu samfélagsmiðla barna og ungmenna á Íslandi þar sem um 11% stráka og 12% stúlkna í 4.-7. bekk, og 63% stráka og 80% stúlkna í 8.-10. bekk, og 81% stráka og 97% stúlkna nota Instagram.*
Helstu aðgerðirnar á Instagram til að bregðast við kynlífskúgun eru:
Nektarmyndir verða sjálfkrafa gerðar óskýrar í einkaskilaboðum til að verja viðtakendur.
Unglingar undir 16 ára aldri geta ekki breytt stillingu reikningsins úr einkaham í opinn án samþykkis forráðamanna.
Aukin fræðsla og forvarnir verða í samstarfi við áhrifavalda á Instagram.
Ráðgjöf verður aðgengileg fyrir notendur sem verða fyrir kynlífskúgun og foreldra unglinga.
Breytingar á tengi og deilimöguleikum á notendareikningum til þess að trufla notkunarmynstur skipulagðra glæpasamtaka á borð við yahoo boys.
Þessar aðgerðir koma í kjölfar breytinga á notkunarskilmálum fyrir unglingsnotendur sem Meta kynnti í september. Meðal þeirra breytinga eru að reikningar notenda undir 18 ára aldri eru sjálfkrafa stilltir á einkaham, engar tilkynningar eru sendar á milli klukkan 22 og 7 á nóttunni til að trufla ekki svefn barna, og foreldrar geta séð hvaða reikninga börnin hafa haft samskipti við nýlega.
Ábendingar fyrir foreldra
Foreldrar þurfa að tryggja öryggi barna sinna á samfélagsmiðlum, sérstaklega í ljósi þessara nýju breytinga. Hér eru nokkur mikilvæg ráð:
Virkja öryggisstillingar: Gakktu úr skugga um að reikningar barna séu rétt stilltir á einkaham og að nýjustu breytingar frá Meta séu virkar.
Rétt skráning: Tryggðu að börn séu rétt skráð með rétta fæðingardagsetningu svo breytingarnar nái til þeirra.
Samræður um netöryggi: Ræddu við börnin um ábyrgð á netinu og hættuna á kynlífskúgun. Ef börnin lenda í slíkum aðstæðum, vísaðu þeim á ráðleggingar frá 112.
Skjátími: Nýjustu breytingar takmarka tilkynningar á Instagram á nóttunni. Hvetjið börnin til að takmarka skjátíma, sérstaklega á kvöldin.
Á vefsíðu 112 er að finna stöðluð viðbrögð sem unglingar geta notað ef þau eru beðin um nektarmynd.
Hefur þú orðið fyrir kynferðisofbeldi?
Hafðu samband við 112 hvenær sem er til að fá aðstoð ef þér hefur verið nauðgað, beitt öðru kynferðisofbeldi eða grunar að slíkt hafi skeð.
Leitaðu til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis ef brotið er nýafstaðið.
Einnig er hægt að fara á heilsugæsluna eða til þjónustumiðstöðva fyrir þolendur ofbeldis: Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri, Sigurhæðir á Selfossi og Suðurhlíð í Reykjanesbæ.
———-
Nánari upplýsingar veitir María Rún Bjarnadóttir, sviðsstjóri nýsköpunar og stefnumótunar hjá embætti ríkislögreglustjóra, mrb@logreglan.is
*Leiðrétt kl. 15.38 19.10.2024. Upprunalega frétt leiðrétt varðandi notkun barna á samfélagsmiðlum. Tölurnar núna snúa að notkun allra barna á Instagram. Sjá nánar í könnun Fjölmiðlanefndar.