Þessi frétt er meira en árs gömul
Kosningarréttur íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis
19. október 2023
Íslenskir ríkisborgarar sem búið hafa lengur en 16 ár erlendis þurfa að sækja um að vera teknir á kjörskrá fyrir 1. desember.

Íslenskir ríkisborgarar sem hafa haft lögheimili erlendis lengur en í 16 ár (fluttu lögheimili sitt fyrir 1. desember 2007) þurfa að sækja um að verða teknir á kjörskrá í kosningum til Alþingis, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Til þess að geta sótt um þarf umsækjandi að:
hafa íslenskan ríkisborgararétt,
vera 18 ára eða eldri á kjördag,
hafa einhvern tímann á ævinni átt lögheimili á Íslandi.
Sækja þarf um að vera tekin á kjörskrá til Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember 2023. Ef umsækjandi uppfyllir skilyrðin verður hann skráður á kjörskrá til næstu fjögurra ára á eftir.
Íslenskir ríkisborgarar sem búið hafa skemur en í 16 ár erlendis (hafa flutt lögheimili sitt eftir 1. desember 2007) hafa sjálfkrafa kosningarrétt á Íslandi í kosningum til Alþingis, við forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur. Til að mega kjósa þurfa þeir þó einhvern tímann að hafa átt lögheimili á Íslandi og vera orðnir 18 ára á kjördag.
Til að hafa kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum þarf að hafa lögheimili í sveitarfélagi og því ekki hægt að vera búsettur erlendis. (Nema ef um námsmenn á Norðurlöndunum að ræða, þeir halda sínum kosningarrétti en þurfa þó að sækja um það fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar).