Um gæði og öryggi skurðaðgerða við offitu
19. mars 2018
Embætti landlæknis hefur, sem kunnugt er af fréttum, til rannsóknar erindi er varða afleiðingar skurðaðgerða við offitu.
Embætti landlæknis hefur, sem kunnugt er af fréttum, til rannsóknar erindi er varða afleiðingar skurðaðgerða við offitu.
Þrátt fyrir að þessari rannsókn sé ekki lokið telur landlæknir ástæðu til þess að hafa áhyggjur af gæðum og öryggi slíkra aðgerða og eftirmeðferðar. Enn fremur af sjúklingum sem velja að fara í slíkar aðgerðir án nægilegs undirbúnings og eftirlits.
Landlæknir vill minna á að skurðaðgerðir fela ávallt í sér áhættur, hverju nafni sem þær nefnast. Allar tegundir aðgerða vegna offitu fela í sér hættur til skemmri og lengri tíma. Ákvörðun um aðgerð þarf að byggja á traustum upplýsingum um eðli, verkun og afleiðingar aðgerðar, valkosti, væntingar, vandamál og vágesti.
Skurðaðgerð ein og sér á aldrei að vera útgangspunktur meðferðar við offitu. Þær krefjast mikilla og varanlegra breytinga á lífsháttum ef varanlegur árangur á að nást. Nægilegt eftirlit, stuðningur við áframhaldandi breytingar á lífsháttum, ásamt meðferð fylgikvilla og ýmissa vandamála sem upp geta komið til langframa er nauðsynlegt.
Ef farið er á eigin vegum í slíkar aðgerðir þarf að huga að því hvernig eftirfylgd og meðferð fylgikvilla og aukaverkana er háttað. Ef farið er til útlanda á eigin vegum þarf að huga vel að tryggingamálum þar sem hefðbundnar ferðatryggingar tryggja sjaldnast kostnað af skakkaföllum sem verða við læknismeðferðir sem ekki teljast bráðatilvik. Slíkur kostnaður getur orðið gríðarlegur ef illa fer.
Rétt er að benda á að meðferð offitu sem stenst alþjóðlegar kröfur, þar með talið formeðferð, skurðaðgerðir og eftirfylgd, er í boði innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Forkröfur aðgerðar eru hóflegar og til þess ætlaðar að tryggja að farið sé í aðgerð eftir nægilegan undirbúning og með réttar væntingar og vitneskju.