Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
14. mars 2018
Málþing 20. mars í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 12:30-16:15
Alþjóðlegi hamingjudagurinn er haldinn 20. mars ár hvert að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu takmarki fyrir einstaklinga og stjórnvöld. Í tilefni af deginum í ár er haldið málþing þar sem fjallað verður um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og hvernig þau samræmast áherslum Heilsueflandi samfélags um vellíðan fyrir alla.
Kynntar verða nýjar niðurstöður frá Embætti landlæknis um stöðu heilsu, hamingju og vellíðanar í stærstu sveitarfélögum landsins og velt upp hversu langt við erum komin í því að gera hamingju, heilsu og vellíðan að markmiði í stefnum stjórnvalda.
Ennfremur verður farið yfir hvernig sænsk sveitarfélög hafa unnið með heimsmarkmiðin og hvaða tækifæri íslensk sveitarfélög sjá með tilliti til heimsmarkmiðanna og Heilsueflandi samfélags.
Málþingið hefst kl. 12:30 með ávarpi frá Elizu Reid forsetafrú og vendara Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Á meðal fyrirlesara eru Dr. Kai Ruggeri, aðstoðarprófessor við Columbia háskóla Mailman School of Public Health í New York og stjórnandi rannsóknarhóps um stefnumótun við sálfræðideild Cambridge háskóla. Hans sérsvið er m.a. áhrif efnahagsstefnu á vellíðan. Fredrik Lindencrona frá sambandi sænskra sveitarfélaga mun einnig miðla af reynslu Svía við innleiðingu heimsmarkmiðanna.
Aðstandendur málþingsins eru forsætisráðuneytið, Embætti landlæknis, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Endurmenntun Háskóla Íslands.
Allir eru velkomnir og þátttaka er án endurgjalds.
Nánari upplýsingar veita:
Gígja Gunnarsdóttir (málþingið almennt og Heilsueflandi samfélag) Verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags hjá Embætti landlæknis gigja@landlaeknir.is
Ásta Bjarnadóttir (um heimsmarkmiðin og starf verkefnisstjórnarinnar) Verkefnisstjórn stjórnarráðsins um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna asta.bjarnadottir@for.is