Brautryðjandi í núvitundariðkun á Vesturlöndum, Jon Kabat-Zinn loksins á Íslandi
27. febrúar 2018
Núvitund hefur á síðustu árum notið mikilla vinsælda í hinum vestræna heimi. Kostir þess að iðka núvitund eru margir og hægt að stunda hana hvar og hvenær sem er. Núvitund hefur öðlast sess á fjölmörgum sviðum mannlífsins, m.a. í mennta-, dóms- og heilbrigðiskerfum, á vinnustöðum og í afreksíþróttum.
Núvitund hefur á síðustu árum notið mikilla vinsælda í hinum vestræna heimi. Kostir þess að iðka núvitund eru margir og hægt að stunda hana hvar og hvenær sem er. Núvitund hefur öðlast sess á fjölmörgum sviðum mannlífsins, m.a. í mennta-, dóms- og heilbrigðiskerfum, á vinnustöðum og í afreksíþróttum.
Jon Kabat-Zinn, brautryðjandi í iðkun núvitundar í vestrænum heimi er væntanlegur til Íslands í lok maí á vegum Embættis landlæknis og Núvitundarsetursins. Verður hann með fyrirlestra og námskeið í Hörpu dagana 30. maí,1. og 2. júní nk.
Jon, sem þróaði fyrsta núvitundarnámskeiðið gegn streitu árið 1979 (Mindfulness Based Stress Reduction) er prófessor emeritus í læknisfræði við Háskólann í Massachusetts. Niðurstöður rannsókna sýna að námskeiðið skilar árangri á mörgum sviðum og er kennt víða um heim. Þar fjallar Jon m.a. um ævistarf sitt, að byggja brú milli austrænnar visku og vestrænna vísinda. Hér fyrir neðan eru stuttar lýsingar á viðburðunum:
Listin og vísindin á bak við núvitund
Miðvikudaginn 30. maí verður kvöldstund með Jon þar sem hann mun fara yfir listina og vísindin á bak við núvitund. Hann mun fara í einfalda hugleiðsluiðkun með þátttakendum sem stuðlar að bættri heilsu fyrir iðkandann og heiminn. Þetta erindi hans nær til þeirra sem vilja kynna sér nánar hvað felst í nálgun núvitundar og vísindin sem liggja þar að baki.
Viska og þol á álagstímum
Föstudaginn 1. júní mun Jon leiða þátttakendur í gegnum daginn með hugleiðsluæfingum og umræðu til þess að styrkja þá í aukinni hugarró og visku. Dagurinn á erindi við alla sem vilja læra aðferðir til að takast á við áskoranir daglegs lífs og auka lífsgæði sín. Þátttakendum gefst tækifæri til að vera með Jon í einn dag og finna á eigin skinni hvað það er sem hefur laðað fjöldann allan af fólki að núvitund á síðustu árum. Hann mun leiða hugleiðslur, jóga og umræður.
Núvitund í uppeldi
Laugardaginn 2. júní mun Jon ásamt konu sinni, Mylu Kabat-Zinn, halda vinnustofu þar sem þátttakendur fá fræðslu um það hvernig núvitund getur auðveldað þeim að mæta hverju barni með visku og virðingu. Vinnustofan er ætluð foreldrum og öðru fjölskyldufólki sem og öllum þeim sem annast börn á einn eða annan hátt, bæði fagfólki og almenningi.
Jon er vinsæll kennari og fyrirlesari og á þekking hans erindi til allra sem leitast við að gera sitt besta til að takast á við áskoranir daglegs lífs, auka vellíðan og lífsgæði og stuðla að betra samfélagi. Allir sem hafa áhuga á núvitund eða langar einfaldlega að nýta þetta einstaka tækifæri og kynnast hinum merka frumkvöðli Jon Kabat-Zinn er bent á að tryggja sér miða á harpa.is þar er einnig hægt að nálgast frekari upplýsingar um hvern viðburð.