Bændur græða landið í 418 verkefnum
15. apríl 2024
Uppgræðsluverkefni bænda með styrk frá Landi og skógi ná yfir um 3.800 hektara á þessu ári. Alls fá 418 landgræðsluverkefni bænda styrk að þessu sinni.
Úthlutun til verkefna fyrir árið 2024 undir merkinu Bændur græða landið lauk 15. mars og fór fram í gegnum Ísland.is. Í þeim 418 verkefnum sem hljóta styrk til landgræðslu þetta árið er ætlað að unnið verði á um 3.500 hekturum með tilbúnum áburði og um 300 hekturum með lífrænum áburði. Í flestum tilfellum er lífræni áburðurinn húsdýraáburður sem fellur til á bæjum.
Þátttakendur eru einnig styrktir með fræi, einkum af túnvingli og melgresi. Jafnframt er úthlutað birkiplöntum og baunagrasplöntum. Túnvingullinn er ræktaður á ökrum í kringum Gunnarsholt á Rangárvöllum og þresktur að hausti en auk þess hefur verið þreskt af uppgræðslum inni á afrétti Landmanna. Melgresi er sömuleiðis slegið að hausti, en því er safnað víðs vegar af uppgræðslusvæðum, svo sem í Landeyjafjöru, á Mýrdalssandi og í Vatnsbæjargirðingu í Kelduhverfi. Baunagrasplönturnar eru jafnframt ræktaðar af Landi og skógi. Fræi er safnað með höndum, það meðhöndlað, smitað með svepprót og því næst ræktað upp í bökkum.
Almennt heimsækja ráðgjafar Lands og skógar þátttakendur í verkefninu annað hvert ár. Þá er farið yfir verkefnin, árangur metinn og aðferðir endurskoðaðar ef þurfa þykir. Þátttakendur senda inn gögn um landfræðilega staðfestingu aðgerða ásamt upplýsingum um eðli þeirra.
Árangur verkefna er alla jafna góður, hvort heldur með tilliti til landgræðslu eða samskipta þátttakenda og héraðsfulltrúa Lands og skógar. Verkefnið Bændur græða landið er í stöðugri þróun með því markmiði að stuðla að betri árangri landgræðsluaðgerða, aukinni skilvirkni og bættu utanumhaldi. Starfsfólk Lands og skógar hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs við bændur og aðra landeigendur um landgræðslu og landbætur á heimalöndum um allt land.
Heimild: Anna S. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri "Bændur græða landið”.
Ljósmyndir: Árdís Hrönn Jónsdóttir og Jóhann Gísli Jónsson.