Sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi
1. apríl 2022
Í tilefni 40 ára afmælis Hljóðbókasafns Íslands býður safnið upp á sýningu og fyrirlestur um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi undir nafninu Kona á skjön.
Sýningunni verður sjónlýst fyrir blinda.
Fyrirlesari er Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar. Hún er jafnframt annar höfunda sýningarinnar ásamt Kristínu Sigurrós Einarsdóttur skjalaverði og svæðisleiðsögumanni.
Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 28. apríl klukkan 14.30 og sýningin verður svo opin í mánuð þar á eftir.
Rithöfundaferill Guðrúnar frá Lundi er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast yfir nótt og bækurnar tróna á toppi vinsældarlista í áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út, eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum.
Hún var alla tíð dáð af stórum hluta þjóðarinnar en raddsterkir áhrifamenn flokkuðu verk hennar með erlendu reyfararusli.
Sýningin hefur farið víða um landið og er þetta níundi sýningarstaðurinn. Að þessu sinni verður sýningunni hljóðlýst og sér Þórunn Hjartardóttir um að sjónlýsa sýningarspjöldunum fyrir blinda og sjónskerta. Sýningin er opin út maímánuð á opnunartíma safnsins.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Kaffi og kleinur verða í boði eftir fyrirlesturinn.