Námsefni - lokaðar lindir
Hér er farið yfir námsefni hluta 1 fyrir námskeið ábyrgðar- og tæknimenn lokaðra geislalinda.
Veffyrirlestrar Geislavarna ríkisins
Myndbönd frá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni
Fræðsluefni
Geislun vegna læknismeðferða (fjallar meðal annars um viðmiðunargeislaálag fyrir ts af kvið og heila)
Það sem við köllum geislun er í raun flutningur á orku, annað hvort sem agnastraumur eða sem rafsegulbylgjur (eins og ljós). Geislun er flokkuð eftir þeim áhrifum sem hún hefur og er oft skipt í tvo flokka: annars vegar jónandi geislun og hins vegar ójónandi geislun.
Við jónun er rafeind fjarlægð frá sameind eða frumeind, sem verður við það rafhlaðin. Geislun er kölluð jónandi þegar hún hefur nógu mikla orku til að breyta sameindum í líkamanum og getur þannig valdið efnafræðilegum breytingum í frumum líkamans, sem geta síðan haft skaðleg áhrif á starfsemi frumunnar.
Dæmi um slíka geislun er:
röntgengeislun (e. x-rays)
gammageislun (e. gamma rays).
Dæmi um geislun sem er ekki jónandi, það er ójónandi, eru:
örbylgjur (e. microwaves), til dæmis í örbylgjuofni,
útfjólublá geislun, til dæmis frá sólinni eða ljósabekkjum (e. ultraviolet rays)
venjulegt ljós
Til viðbótar er venja að nefna úthljóð eða ómun (e. ultrasound) sem hluta af flokknum ójónandi geislun, jafnvel þó þar séu ekki notaðar rafsegulbylgjur heldur hljóðbylgjur við orkuflutninginn.
Áhrif geislunar á mannslíkamann geta birst með mismunandi hætti, allt eftir því hvernig einstakar frumur skaðast og hversu margar þær eru. Líkaminn getur oft náð að lagfæra skaða sem verður vegna geislunar. Í frumum eru það helst DNA, kjarnsýrusameindirnar í litningunum, sem eru viðkvæmar fyrir skaða. Áhrif jónandi geislunar geta verið lítil eða mikil allt út frá því hve mikill skaðinn er og hvar hann verður. Hve mikil áhrifin eru ræðst af tegund geislunarinnar og geislaskammtinum (e. absorbed dose, tissue dose).
Jónandi geislun hefur áhrif á efni með mismunandi hætti eftir því hvort geislunin er með hlöðnum ögnum eða óhlöðnum. Hlaðnar agnir eru alfaeindir og betaeindir en óhlaðnar agnir eru röntgen- og gammageislar. Hlaðnar agnir víxlverka stöðugt við umhverfi sitt og tapa hluta hreyfiorku sinnar á ferð sinni um efni. Óhlaðnar agnir (fótónur) víxlverka ekkert við umhverfi sitt nema þegar þær lenda í árekstri við rafeind í efni. Fótónur halda því óskertri orku og óbreyttri stefnu þar til að hún lendir í árekstri. Orkutap fótóna er því ekki samfellt heldur er orkutap hverrar fótónu tilviljunarkennt.
Áhrifunum má skipta í tvo flokka, skaðar sem eru tilviljunarkenndir eða slembiskaðar og svo skaðar sem eru vísir eða bráðir.
1. Tilviljunarkenndir og síðbúnir slembiskaðar geta orðið við litla geislun
Magn geislunar ræður líkum á skaða en ekki magni hans.
Meiri geislun þýðir meiri líkur á breyttum frumum, en það er álitið að ein þeirra sé nóg til að orsaka krabbamein.
Slembiskaðar eiga sér engan fræðilegan þröskuld samkvæmt núgildandi líkani.
Allri geislun fylgja því einhverjar líkur á slembiskaða.
Þessi áhætta er alltaf fyrir hendi til dæmis vegna náttúrulegrar geislunar, en í flestum tilvikum er hún hverfandi lítil og mun minni en aðrir áhættuþættir í umhverfinu.
2. Vísir skaðar og bráðir verða við mikla geislun.
Skaðinn er af völdum mikillar geislunar og sem skaðar margar frumur það mikið að þær deyja og hefur sýnileg áhrif á vef eða starfsemi líffæris.
Vísir og bráðir skaðar koma ekki fram nema magn geislunar sé yfir ákveðnu marki (þröskuldi).
Ef um staðbundna geislun er að ræða geta áhrifin lýst sér sem brunasár
Sé um viðkvæmt líffæri að ræða eða hafi geislun dreifst víða á líkama getur dauði hlotist af á nokkrum klukkustundum til vikna
Magn geislunar ræður stærð skaðans, skaðinn á sér jafnframt þröskuld, sé magn geislunar neðan ákveðinna marka, þá verða engin áhrif á starfsemi líkamans sýnileg.