Nýtt rit um útskrift sjúklinga eftir meðferð með geislavirkum efnum
30. janúar 2024
Geislavarnastofnanir Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur hafa gefið út tæknirit (e. technical report) um helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar ákveðið er hvenær hægt er að útskrifa sjúklinga eftir meðferð með geislavirkum efnum.
Ritið ber nafnið Considerations for the release of patients after radionuclide therapy.
Tilgangur ritsins er að lýsa þeim atriðum sem nauðsynlegt er að sjúkrahús og stjórnvöld taki tillit til þegar viðmið eru sett um útskrift sjúklinga eftir meðferð með geislavirkum efnum.
Útskrift sjúklinga á að byggja á öryggismati þar sem geislun á almenning og einstaklinga sem standa nærri sjúklingi er metin. Meðal annars ætti að taka tillit til einstaklingsbundinna heimilisaðstæðna, starfsaðstæðna og mögulegrar meðhöndlunar á geislavirkum úrgangi.
Sviðsmyndir vegna meðferðar með geislavirkum efnum og leiðbeiningar til sjúklinga og aðstandenda ættu þannig að líta til þess hver gæti orðið fyrir geislun, undir hvaða kringumstæðum og hvaða geislaálag gæti orðið vegna geislunar frá sjúklingi eftir útskrift.
Ritið sýnir dæmi um ferli sem meðferðaraðilar geta fylgt þegar ákvörðun er tekin varðandi leiðbeiningar til sjúklinga og aðstandenda eftir útskrift sjúklings. Einnig eru gefin dæmi um leiðbeiningar ásamt umfjöllun um meðhöndlun geislavirks úrgangs á heimili sjúklings.