Fara beint í efnið

Að leita réttar síns, upplýsingar fyrir neytendur vöru og þjónustu

Sérstakar reglur gilda við kaup á vörum annars vegar og þjónustu hins vegar.

Verð
Það gildir um öll kaup að uppgefið verð eigi að vera rétt og endanlegt og virðisaukaskattur og hvers konar gjöld innifalin. Öll kaup eru bindandi samningur milli seljanda og neytanda.

Skilaréttur
Þegar hlutur er keyptur í verslun er skilaréttur ekki til staðar nema um annað hafi verið samið eða sérstaklega tekið fram. Þegar hlutur er keyptur á netinu er skilaréttur 14 dagar.
Ef varan reynist gölluð á einhvern hátt er mikilvægt að kvarta sem allra fyrst til seljanda
Kvörtunarfrestur vegna galla er almennt 2 ár en allt að 5 ár ef endingartími vörunnar er áætlaður lengri en almennt gerist.

Hvar kvarta ég vegna galla á vöru?
Hjá seljenda getur þú krafist úrbóta, nýrrar afhendingar, afsláttar, riftunar og skaðabóta. Hann hefur tvær tilraunir til þess að reyna að bæta úr galla, t.d. með viðgerð, eða afhenda nýja vöru. Að því loknu má einnig reyna sáttamiðlun hjá sýslumanni. Ef ekki næst samkomulag við seljandann getur þú skotið málinu til kæru- eða úrskurðarnefndar.

Í flestum tilvikum er málum þá beint til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Kærunefndin tekur á móti kvörtunum rafrænt á vef nefndarinnar, kvth.is, en þar er einnig að finna leiðbeiningar um gerð kvörtunar og málsmeðferðina hjá nefndinni.. Þegar kvörtunin er send þarf að greiða málskotsgjald sem fæst endurgreitt vinnir þú málið að hluta eða öllu leyti. Þú getur fylgst með framgangi málsins með innskráningu á vef nefndarinnar. Ef nefndin úrskurðar þér í óhag og þú vilt fara lengra með málið er þér frjálst að halda áfram með það til dómstóla.

Hvernig held ég áfram til dómstóla?
Mál sem eru höfðuð til að leysa ágreining milli tveggja aðila, t.d. neytendamál, teljast vera einkamál. Þá þarf fyrst að útbúa stefnu en það er í langflestum tilvikum gert með aðstoð lögmanns. Stefnuvottar taka svo að sér að birta stefnuna. Að liðnum stefnufresti getur þú svo farið og þingfest hana fyrir dómi. Eftir þingfestingu eru aðilar boðaðir til fundar við dómara í svokallað þinghald. Þar er hægt að óska eftir fresti til að leggja fram og kynna sér gögn. Eftir það er fundinn tími fyrir aðalmeðferð. Þegar aðalmeðferð er lokið kveður dómari upp dóm. Kostnaður við málshöfðun af þessu tagi fer eftir stærð og umfangi en alltaf þarf að greiða þingfestingargjald. Þjónusta lögmanna fylgir þeirra eigin verðskrá. Fyrir dómi er sá aðili sem tapar málinu gjarnan dæmdur til að greiða málskostnað gagnaðilans.